Gljávíðiryð
Á gljávíðirinn einhvern séns eða á ég að fjarlægja hann?
Við mælum ekkert sérstaklega með því að hekkið verði strax fjarlægt. Það verður hver garðeigandi að ákveða fyrir sig hvort hún/hann vill sjá hverju fram vindur eða losa sig við gljávíðinn og planta einhverju öðru í staðinn.
Hvað get ég gert?
Snemma vors getur þú klippt ársvöxtinn frá í fyrra. Einnig er hægt að meðhöndla víðinn með sveppalyfinu Plantvax. Það gerir maður 3svar yfir sumarið og eingöngu ef sveppurinn er til staðar, þ.e. ef ryðblettirnir sjást á blöðunum. Fyrst um mánaðamótin júní/júlí, aftur júlí/ágúst og mikilvægt er að úða um mánaðamótin ágúst/september.
Hversu mikið þarf ég að klippa?
Allan ársvöxtinn frá í fyrra. Hafi ryðið verið mikið árið áður má saga hekkið alveg niður. Athugið samt að gljávíðirinn þolir ekki þá meðferð ár eftir ár. Það myndi ganga of nærri honum. Losaðu þig við afklippurnar. Annað hvort má urða þær eða skila þeim í móttökustöðvar fyrir rusl.
Hvað get ég gert til forvarna?
Rétt áburðargjöf hefur mikið að segja um varnir plantna gegn allskyns sjókdómun hvort sem það séu bakteríusýkingar, sveppasýkingar eða skordýr. Kalíríkur áburður (Blákorn eða kúamykja) eykur vatnsstreymið um plöntuna og þéttir bil á milli frumuveggja og þannig verður erfiðara fyrir sveppagró að komast inn á milli þeirra.
Regluleg athugun gróðurs er nauðsynleg svo hægt sé að taka á vandamálum áður en það er orðið of seint.