Meindýravarnir Suðurlands

Við hötum pöddur ;)

Slideshow Image

Þessi svör eru fengin af vefnum visindavefur.is 

 

Spurning

Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu?

Spyrjandi

Elsa María Thompson

 
 

Svar

Æxlunartímabil íslenskra nagdýra ræðst aðallega af tíðarfari og því hvar á landinu nagdýrin lifa.


Sænski vistfræðingurinn Bengtson rannsakaði ýmsa þætti í vistfræði hagamúsarinnar (Apodemus sylvaticus) á Íslandi á árunum 1973-1977. Í rannsókn sinni bar hann saman tvo stofna sem lifðu við mjög ólík umhverfisskilyrði. Annar lifði í hvannabreiðum við Reynisfjall skammt frá Vík í Mýrdal en hinn í birkiskógi í Vogahrauni í Mývatnssveit. Ekki einungis var gróðurfarið ólíkt heldur einnig veðurfar og fæðuframboð. 

Við Reynisfjall byrjuðu mýsnar að undirbúa sig fyrir tímgun strax í mars og apríl og fyrstu ungarnir fæddust snemma í maí. Alls komust upp fjórar hagamúsakynslóðir þau sumur sem Bengtson stundaði rannsóknir sínar við Reynisfjall, sú síðasta í september. Æxlunartímabilið hjá hagamúsum við Reynisfjall er þess vegna frá apríl til ágúst.

Annað gilti um mýsnar í Vogahrauni í Mývatnssveit. Þar fundu vísindamennirnir ungafull kvendýr og hálfstálpuð dýr ekki fyrr en í ágúst. Æxlunartímabilið í Mývatnssveit er þess vegna mun styttra en við Reynisfjall; eða frá júní/júlí til ágústmánaðar.


Við góð skilyrði getur tímgunartími húsamúsarinnar (Mus musculus) verið allt árið, til dæmis ef hún lifir í híbýlum þar sem hún reyndar er mjög algeng hérlendis og víðar. 

Brúnrottan (Rattus norvegicus) hefur mjög breytilegan æxlunartíma og fer hann mjög eftir umhverfi og aðstæðum. Ef rottan lifir í einhvers konar híbýlum þar sem nægt fæðuframboð er getur hún átt afkvæmi allt árið um kring en úti í náttúrunni eingöngu hlýjustu mánuði ársins. Það sama gildir um æxlunartímabil svartrottunnar (Rattus rattus).
 
 
 
Spurning

Hvað getur þú sagt mér um hagamýs?

Spyrjandi

Rafn Erlingsson, f. 1991

 

Svar

Hagamúsin (Apodemus sylvaticus) er ein af sjö tegundum músa sem tilheyra ættkvíslinni Apodemus. Meðlimir þessarar ættkvíslar hafa aðlagast lífi á sléttum, engjum og skóglendi. Hagamúsin finnst um mest alla Evrópu, víða í Asíu og nyrst í Norður-Afríku. Heimkynni hennar ná hins vegar ekki langt norður í barrskógabeltið. Hagamúsin er útbreidd á Bretlandseyjum og Írlandi og að sjálfsögu á Íslandi en finnst ekki í Færeyjum né á Grænlandi. Á Íslandi þrífst hún alls staðar þar sem nægur gróður er.



Fullorðnar hagamýs eru oftast grá- eða gulbrúnar að ofan en hvítgráar á kvið. Ungar hagamýs eru dekkri og óvanir rugla þeim oft saman við húsamús. Lengd hagamúsarinnar, án hala, er frá 8-10,5 cm. Músakarlar eru um 29-34 grömm á þyngd en kvendýr um 24-31 g. Rannsóknir sænska vistfræðingsins Bengtsons hafa sýnt fram á að íslenskar hagamýs eru að jafnaði stærri en hagamýs í Skandinavíu og á Bretlandi.

Meðgöngutími hagamúsa er um 25 dagar og ungarnir, sem vega um 1-2 g, fæðast blindir og hárlausir. Oftast gýtur kvendýrið 4-7 ungum en í góðu árferði geta þeir verið fleiri. Eftir um 6 daga eru ungarnir komnir með grábrúnan feld og sjónina fá þeir vanalega 10 dögum síðar. Ungarnir eru vandir af spena 18-22 daga gamlir og þurfa þá að bjarga sér sjálfir. Á þessum tíma eru afföll mikil meðal músaunga. 

Tímgunartími hagamúsa hér á landi er mjög misjafn og fer mjög eftir búsvæði og tíðarfari. Rannsóknir á Bretlandseyjum sýna að tímgunartími músa þar er mun lengri, enda er veðurfar þar mildara. Tímgunartími músa á Bretlandseyjum er frá apríl til október. Um æxlunartíma músa er hægt að lesa nánar í svari við spurningunni Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu?

Hagamúsin heldur til í holum og þar hefur hún hreiður til að ala upp unga sína og forðabúr. Annað hvort grefur hún sjálf holur í brekkur, bakka eða þúfur eða kemur sér fyrir undir steinum. Helsta fæða hagamúsa hérlendis eru einkum grasfræ, ber og fræ ýmissa blóma. Hagamúsin étur líka öll þau smádýr sem hún kemst í tæri við og hræ. Hún er mest á ferli á næturnar.

Helstu óvinir hagamúsarinnar eru refir og minkar. Ránfuglar eins og smyrill, fálki, brandugla og kjói veiða einnig töluvert af músum. Auk þess veiða kettir mikið af hagamúsum í grennd við heimili.

Hagamýs geta valdið talsverðum skemmdum í híbýlum manna, meðal annars skemma þær matvæli og víða í Evrópu eyðileggja þær tómata-, blómlauks- og matbaunarækt. Skemmdir sem hagamýs valda eru þó frekar litlar.

Margir náttúruskoðendur hafa velt því fyrir sér hvernig best sé að greina í sundur húsa- og hagamýs. Fyrir utan litinn - en hagamýs hafa ljósari kvið - eru hagamýs með stærri augu og frammjórra trýni. Öruggasta leiðin er þó að greina þær á framtönnunum. Húsamúsin hefur hak upp í slitflöt á framtönnum í efri skolti en hagamúsin er ekki með slíkt hak.

Banners

Meindyravarnir Opnun